154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið nokkuð líflegar umræður hér í dag og ekki síst núna þegar fer að halla á seinni partinn þá fer samtalið gjarnan að verða dálítið öðruvísi. Mig langar að koma aðeins inn í þessa umræðu, það er kannski endurtekið efni, það sem margur hefur sagt í dag, en ég ætla engu að síður að segja að það er auðvitað bara ánægjulegt að við séum á réttri leið í efnahagslegu tilliti, ekki síst þegar afkoman er margfalt betri heldur en gert var ráð fyrir. Verðbólgan er sannarlega á niðurleið, hægt, en hún er það, og ég trúi því að verðbólgumælingarnar muni ganga niður sem verður til þess að lækkun vaxta verður vonandi að veruleika.

Mig langar líka að koma inn á að það er auðvitað verið að kynna aðhald í ríkisrekstri en það er líka verið að kynna til tekjur. Eins og hér hefur komið fram er tekjuskattur lögaðila að hækka tímabundið. Það verða lögð á fiskeldisgjöld. Það er verið að innleiða nýtt módel í innheimtu á bifreiðagjöldum sem er löngu tímabært og hefði eiginlega þurft að vera búið að gera fyrr. Við erum búin að ræða það í fjárlaganefnd í mörg ár hversu mikið fall hefur orðið í innheimtu á bifreiðagjöldum. Síðan er það þetta mikilvæga varðandi bæði gistináttaskattinn og skemmtiferðaskipin. Ég held að við þurfum að hafa það í huga, ekki síst varðandi gistináttaskattinn, að hann verður að vera þrepaskiptur. Hafandi starfað í þessum geira þá er eiginlega hjákátlegt að rukka sama gjald fyrir tjaldið og fyrir gistiherbergið. Þetta verður að vera þrepaskipt og huga að því að ef þú ert að borga 50.000 kr. fyrir hótelherbergi þá borgir þú gistináttaskatt í hlutfalli við það. Eins er með skemmtiferðaskipin. Við Vinstri græn komum til með að leggja fram mál er varðar takmarkanir í ferðaþjónustu, þ.e. einhvers konar ítölu varðandi álag á viðkvæm svæði, þar sem það er löngu orðið tímabært að við stýrum þessari miklu ferðaþjónustu meira en verið hefur. Landið okkar er það eftirsóknarvert að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að mínu mati.

Frú forseti. Það er margt fram undan, stór verkefni og kjarasamningar og hér hefur verið rætt um aðkomu stjórnvalda í því samhengi. Ríkisstjórnin tilkynnti núna í vor um ákveðnar aðgerðir í húsnæðismálum þar sem gert er ráð fyrir tvöföldun á framlögum til að byggja hagkvæmt húsnæði. Það er mjög mikilvægt. Það er líka verið að vinna að bættri réttarstöðu leigjenda. Þar var starfshópur að störfum og þær tillögur liggja fyrir og aðilar vinnumarkaðarins og starfshópur stjórnvalda eru í rauninni að vinna úr þessu. Ég vona svo sannarlega að það nái fram að ganga því að það er ekki síður mikilvægt heldur en mál þeirra sem vilja kaupa sér húsnæði.

Hér hafa líka verið eðli máls samkvæmt ræddar millitekjufjölskyldur, barnafjölskyldur o.s.frv. og þar hefur ríkisstjórnin staðið vel með því að bæta kjörin og mun halda því áfram. Það er verið að taka út á vegum þjóðhagsráðs stöðu ungbarnafjölskyldna og niðurstöður þeirrar úttektar verða nýttar til að bæta kjör þessara fjölskyldna. Sama má segja um fátækt. Forsætisráðherra lét vinna skýrslu þar sem kom fram að dregið hefur úr fátækt, eins og kom fram í hennar máli í gær, á undanförnum 20 árum og staðan er í sjálfu sér ágæt. Það þýðir þó ekki að við þurfum ekki að grípa fólkið sem býr við fátækt og það eru þessir aðilar sem við þekkjum svo vel, einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur sem kannski standa hvað veikast fyrir. Þessi ríkisstjórn gefur ekkert eftir í því að halda áfram þeirri vinnu sem fram hefur farið.

Mig langar aðeins að ræða hér um velferðarþjónustuna. Við viljum auðvitað hafa sterka og faglega þjónustu á þessu sviði því að það er bara grundvallarstoð í samfélagi sem á að byggja á réttlæti. Þar er greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu einna mikilvægastur og hagur allra í samfélaginu að slíkt aðgengi sé til staðar. Framlögin hafa verið aukin þétt í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur svo að um munar. Við þekkjum umræðuna um Landspítalann, það eru ríflega 10 milljarðar settir þar inn núna og reiknaður raunvöxtur í þjónustu innan málaflokksins er tæpir 2 milljarðar. Þetta er tímamótaframkvæmd og ekkert okkar er í vafa um það, trúi ég, að hún bæti auðvitað starfsaðstöðu þeirra sem þar vinna og vonandi verður til þess líka að okkur helst betur á fólki þegar við búum betur að því.

Við höfum líka dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og því er haldið áfram. Heilsugæslan hefur verið stórefld og innan hennar geðheilbrigðisþjónustan. Það þarf þó að halda áfram og gera enn betur eins og lagt er til. Það er mjög mikilvægt að nú er búið að semja við sérfræðilækna, ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, og styrkir til tannréttinga hafa verið nær þrefaldaðir.

Það er líka verið að vinna að mönnun heilbrigðiskerfisins samkvæmt landsáætlun um mönnun í heilbrigðiskerfinu. Það er risastórt verkefni og ekki einungis bundið við Ísland. Það eru líka settir fjármunir til að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt og harmónerar við þá vinnu sem ég var hér að nefna hjá heilbrigðisráðuneytinu, það sem kom frá fjórum vinnuhópum frá árinu 2020 þar sem m.a. þetta landsráð er undir.

Varðandi það sem verið er að gera í byggingum þá er Landspítalinn er alltaf dálítið fyrirferðarmikill en framkvæmdir eiga að hefjast við endurhæfingardeildina við Grensás. Það er mjög mikilvægt að það sé gert og síðan er auðvitað endurmat á þarfagreiningu fyrir legudeildina á Akureyri. Ég er dálítið hrifin af því og hef talað hér talsvert um aðgengi og bara almennt um fjarheilbrigðisþjónustu. Í almennri sjúkrahúsþjónustu verður sett á fót fjarheilbrigðisþjónustuteymi. Það teymi á að veita ráðgjöf og handleiðslu til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og tryggja aðgengi að sérhæfðri þjónustu og þetta er á vegum Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítalans. Ég tel að þetta sé afskaplega mikilvægt að gera því að við verðum að horfast í augu við það að við getum aldrei mannað alla sérhæfða þjónustu úti um allt land, það held ég að sé nánast útilokað. Þetta getur líka komið til með að stytta biðlista mjög víða og nú þegar er hafin svona þjónusta, sálgæsla t.d. og ýmis önnur þjónusta sem er þarna undir.

Frú forseti. Ef ég vík að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu eru þar líka undir stórar fjárhæðir og málaflokkurinn nær víða. Stærsti hluti útgjalda þess ráðuneytis er almannatryggingar, atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof, tæplega 300 milljarðar. Það eru u.þ.b. 20% af heildargjöldum ríkissjóðs. Hér hefur margoft komið fram að það er unnið að endurskoðun örorkulífeyriskerfisins og á yfirstandandi ári voru settar 270 millj. kr. til að undirbúa og innleiða matskerfi örorku- og starfsendurhæfingar. Jafnframt var gert ráð fyrir um 170 millj. kr. fjárveitingu til að efla stuðningsúrræði fyrir fólk með mismikla starfsgetu. Það er eitt af því sem þarf mikla hugarfarsbreytingu til til þess að það nái fram að ganga að fólk með skerta starfsgetu sem vill vinna og getur unnið eitthvað fái til þess tækifæri og þar þarf hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, að ganga á undan með góðu fordæmi.

Vegna aðgerðaáætlunar um þjónustu við eldra fólk, sem ber heitið Gott að eldast, er mikilvægt að geta þess að stundum hefur það nú loðað við slíkar áætlanir að þær hafi ekki verið fjármagnaðar en þessi er fjármögnuð.

Það eru auðvitað ýmis ný verkefni í málefnum flóttafólks og innflytjenda og síðan eru auknar fjárheimildir til Vinnumálastofnunar vegna íslenskunámskeiða fyrir flóttafólk og virkniúrræða atvinnuleitenda. Mig langar í þessu samhengi, af því að hér var einmitt nefnt áðan að það væri skorið niður í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, að það bættust við hjá okkur í fjárlaganefnd í fyrra 115 milljónir sem eðli máls samkvæmt detta niður núna. Það er spurning hvort þörf sé á þeim áfram og ég hygg að þeirrar spurningar verði spurt þegar ráðherra málaflokksins kemur til fundar við fjárlaganefnd. Það er bara afskaplega mikilvægt til að hjálpa fólki, ekki síst til að geta valið úr fleiri störfum sem oft byggir á því að geta talað tunguna, að við séum með góða íslenskukennslu fyrir innflytjendur og auðvitað alla hér sem það vilja. En það eru sem sagt líka settir fjármunir í starfstengda íslenskukennslu, í kringum 190 milljónir eins og kemur fram í í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi. Síðan eru fjármunir til Vinnumálastofnunar vegna flóttamanna í þessu samhengi.

Mig langar aðeins að víkja að framhaldsskólanum. Sú umræða hefur eðli máls samkvæmt farið dálítið hátt og ætti ekki að koma neinum á óvart í sjálfu sér. Ég átti hér samtal við ráðherra í vor, í maí nánar tiltekið, en þá var í hámæli sameining Kvennó og MS eins og líklega flestir muna. Ég hafði efasemdir um það og lýsti þeim í þessari sérstöku umræðu við ráðherra. Sama hef ég gert núna. Ég hef óskað eftir umræðu við ráðherra núna í ljósi tíðinda á Akureyri þar sem augljóst var að ekki var farið samkvæmt vinnuferli sem virtist hafa verið teiknað upp, fyrir utan það að ég er bara mótfallin því og ég hef sagt það og stend við það, eins og ég gerði hér í vor, að mér finnst þetta ekki rétta leiðin. Þar sem ég hef starfað innan framhaldsskólans þá langar mig líka að vekja athygli á því að í frumvarpinu kemur fram að það er ákveðnum fjármunum úthlutað síðar, þ.e. haldið eftir ákveðnum fjármunum til að úthluta þegar innritun liggur fyrir, sem er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér. Framhaldsskólarnir vita af því að svona er módelið. Ég veit ekki hvort þetta er endilega besta fyrirkomulagið, ég er ekki viss um það, það er alltaf óþægilegt að vita ekki nákvæmlega hverju þú hefur úr að moða. Ekki síst er það bagalegt, verð ég að segja og ég hef talað um það mjög oft líka, varðandi nemendur á starfsbraut, það er bagalegt þegar ráða þarf inn starfsfólk, þú þarft jafnvel á mörgu starfsfólki að halda vegna þess að nemendur þurfa manninn með sér, en það liggur ekki fyrir og er jafnvel ekki greitt fyrr en í janúar. Það er bara ómögulegt fyrirkomulag. Þetta hefur verið svona til margra ára. Þetta var svona 2013 þegar ég kem hér inn á þing og var búið að vera áður. Þetta er ekki gott. Nú er alltaf verið að tala um einhver líkön og það á að vera eitthvert nýtt framhaldsskólalíkan sem á líka að taka á ólíkum skólum út frá fleiri þáttum en gert hefur verið. Ég vona svo sannarlega að það verði skynsamlegra heldur en það sem fyrir er því að það hefur ekki reynst vel að sögn held ég næstum því allra sem ég hef talað við varðandi þetta. En, virðulegi forseti, ég er samt sem áður ánægð með að það eigi að styrkja og hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi og jafna kynjahlutföllin og auðvitað gerum við það ekki með því að sameina skóla til að búa til peninga með þeim hætti. Ég hef áhyggjur af því þegar verið er að tala um 1.800 manna skóla og það eigi að skera niður í stoðþjónusta þegar við horfum á það að allar kannanir sýna okkur að unga fólkinu okkar virðist líða verr. Þá er þetta ekki leiðin. Að því sögðu er ég ekki mótfallin því að sameina skóla eða aðrar stofnanir, bara alls ekki. En við þurfum bara að gera það með skynsamlegum hætti. Ég held að þessi umræða verði fyrirferðarmikil í fjárlaganefnd. Ég hef trú á því að fjármögnun framhaldsskólans hljóti að koma þar til umræðu og ráðherra þurfi að svara því og reyna að finna út úr því hvort það er þá mismunandi vegna þess að skólarnir eru allir í sama líkani meira og minna eða hvort það er sama sagan alls staðar, sem ég held ekki.

Hins vegar verð ég að segja að mér líst vel á áformin sem eru um eflingu háskólastigsins sem á að gera það samkeppnishæfara í alþjóðlegum samanburði. Það er verið að boða sameiginlega innritunargátt sem ég held að sé mjög gott og ætti reyndar líka að vera í framhaldsskólunum að mínu mati. Nýtt fjármögnunarlíkan á að innleiða í áföngum og ég held að ráðherra hyggist kynna það núna fljótlega. Það á að vera gagnsærra heldur en það sem er við lýði og það eru nýir fjármunir settir í þetta verkefni og ég trúi því að það verði til bóta.

Virðulegi forseti. Bara rétt í lokin af því að hér var verið að tala áðan um flatt aðhald, en ég hef verið mótfallin flötu aðhaldi. Það hef ég sagt margoft, sagði það síðast upp í ráðuneyti þegar við vorum að vinna að útfærslu þessa frumvarps. Það sem okkur skortir hins vegar hér og við höfum oft rætt í fjárlaganefnd er talnagrunnur. Ráðuneyti fjármála hefur ekki nógu góðan talnagrunn hjá hverri stofnun fyrir sig til þess að hægt sé að segja beinlínis að þetta verkefni sé nauðsynlegra en hitt og taka þá pólitísku ákvörðun. En af því að hér var talað um að það væri engin pólitísk ákvörðun falin í þessu þá er ég ekki alveg sammála því vegna þess að ráðherrar fá jú þessa aðhaldskröfu. Þeir þurfa að forgangsraða innan síns ráðuneytis miðað við þetta aðhald sem sett er fram, þannig að auðvitað liggur pólitíkin þar að einhverju leyti. Ég alla vega myndi ekki treysta mér til að segja að það væri hægt að skera niður í einhverri tiltekinni stofnun eitthvert verkefni eða að ég teldi þessa stofnun ekki endilega þurfa svona mikla peninga vegna þess að ég hef í rauninni ekki yfirlit yfir það. Ég veit ekki hvort fjárlaganefnd myndi skoða allar stofnanir ríkisins, ég er ekki alveg endilega viss um það. En í öllu falli hefðum við a.m.k. tækifæri til þess ef við hefðum þar til bær gögn þó að ekki væri nema einhvers konar yfirlit og það væri hægt að kalla eftir og fylgja eftir tilteknum verkefnum. Þetta er eitthvað sem er alltaf að þróast og ráðuneyti fjármála er byrjað að vinna í þessu. Það er byrjað að safna að sér gögnum. Ég hef sagt að ég held að við eigum að taka bara einhverjar tilteknar stofnanir á hverju ári og skoða þetta, reyna að búa til þennan grunn til að hafa betri yfirsýn. Við getum ekki étið allan fílinn í einu, það er alveg ljóst, og þetta er mjög umfangsmikið þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem væri til þess fallið að við næðum betur utan um það sem við gjarnan erum að kvarta um á hverju einasta ári að við höfum ekki, þ.e. gagnsæi og yfirlit yfir fjárlögin og stofnanir sem undir heyra.